árið án sumars - rýni

Í Árið án sumars fer sviðslistahópurinn Marmarabörn um víðan völl. Við hefjum leikinn í því sem virðist vera kjarnorkuvetur. Það vakti strax athygli mína að á sviðinu var arineldur gerður úr neon-ljósum. Tilgangur arinsins er að veita hita og kyndingu, en þessi arin var gerður úr led-perum sem raðað var í einhvers konar eldstæðismímík. Hvaða úrkynjun hafði orðið til þess að eldstæðið, arininn, missti allt hlutverk sitt? Það eru fleiri hlutir í heiminum sem af geðþótta (e. arbitrarily) hafa misst tilgang sinn en leika hlutverk í veröldinni okkar og þá sérstaklega tungumálinu. Það „skrúfar” enginn lengur niður rúðuna á bíl, fólk ýtir á hnapp og hún sígur niður eins og fyrir töfra. Höfðu persónurnar í sýningunni einnig misst hlutverk sitt? Kannski vissu þau ekki hver þau voru og voru þarna föst í limbó-i kjarnorkuvetursins. 

Notkun sýningarinnar á ljósum er einstaklega áhugaverð og spennandi. Það er mistur í salnum, blá birta og dularfullt andrúmsloft. Leikmunir fá merkingu, eins og dyr sem enginn gengur í gegn-um en svo er merkingunni breytt á svipstundu. Allt í einu mega allir ganga í gegn um dyrnar og þær hætta að hafa vægi fyrir vikið.

Þátttakendur sýningarinnar fljóta inn á sviðið á fleka, koma sígandi niður úr loftinu eða rísa upp úr líkkistu. Upphafið er ótrúlega spennandi og svo gerist… ekkert. Taktur sýningarinnar er hægur. Persónurnar vafra um í óskiljanlegum textabrotum, virðast vera með einhverja ætlun en bregða frá henni á örskotsstundu, reykja og borða gúmmíorma og eru svöl. Þau tala um Byron og Shelley, veipa, leika skrímsli og láta sér að leiðast og gefa þannig vísbendingu um kveikju titils verksins, hið raunverulega ár án sumars. 

Það er eins og sýningin hefjist nokkrum mínútum fyrir hlé, þegar ein persónan tekur upp á því að brjóta gólfið með bjöllu, sem gæti verið dómsdagsbjallan að minna okkur á að tíminn er naumur? Táknmyndirnar í verkinu eru óendanlegar en hléið var kærkomið og það sem kom eftir hlé var áhugavert og spennandi. Svarthvítt ljós, róbótískar hreyfingar. Við höldum áfram með kjarnorkuveturinn frá öðru sjónarhorni, sjónarhorni vélmenna kannski. Svarthvítt ljósið gerir það að verkum að við áttum okkur ekki á að við erum að horfa á rauðan lit. Rauða sloppa og rauða andlitsmaska sem í gegn um einhvers konar ritúal sem við áhorfendur, og kannski jafnvel þátttakendurnir, skiljum ekki verða að heilagri næringu. Næringu eða blóðfórn? Við blæðum og verðum að vampýrum sem stíga trylltan dans, þjóðdans. Skilja þær hvað dansinn gengur út á? Úrkynjunin nær til allra stiga sýningarinnar, afbyggingin er alger en hún er náttúruleg. Hlutirnir hafa misst tilgang sinn og manneskjurnar líka. Allt er háð geðþótta, hefðum og misskilning. 

Við ljúkum sýningunni á því að lofsyngja bílljós og ör sem veit ekki hvert hún á að benda. Kannski eins og mannkynið í dag?


Previous
Previous

örleikrit - hanna